

Lilja Rannveig
í ritara Framsóknar
Á miðstjórnarfundi Framsóknar 18. október 2025 velur framsóknarfólk sér nýjan ritara.
Ég gef kost á mér í þá stöðu og hér að neðan fer ég yfir nokkur af þeim atriðum sem ég mun beita mér fyrir sem ritari Framsóknar hljóti ég kjör.
Reynsla úr Framsókn
Ég byrjaði að taka virkan þátt í Framsókn árið 2015.
Þá mætti ég á mitt fyrsta sambandsþing SUF og varð stjórnarmeðlimur. Árið 2018 bauð ég mig fram í formann SUF og hlaut kjör. Ég var formaður SUF frá 2018-2021. Sem formaður SUF sat ég í framkvæmdastjórn og landsstjórn flokksins ásamt því að eiga sæti á þingflokksfundum. Ég lagði mikla áherslu á nýliðun og valdeflingu unga fólksins í flokknum og hlaut fyrir þá vinnu heiðursverðlaun LUF.
Árið 2021 hlaut ég þann heiður að vera kjörin á þing fyrir Framsókn í Norðvesturkjördæmi og var þingmaður í 3 ár. Sem þingmaður lagði ég mikla áherslu á samtal og samstarf við trúnaðarfólk í kjördæminu og skipulagði reglulega fundi með framsóknarfólki, bæði staðfundi og fjarfundi.
Á þessu ári hef ég eytt miklum tíma í vinnu fyrir grasrót Framsóknar. Ég er formaður málefnanefndar flokksins þar sem við höfum gert greiningar á stöðu flokksins og undirbúið málefnastarf fram að Flokksþingi. Einnig hef ég unnið að ýmsum verkefnum fyrir skrifstofu Framsóknar og gegni stöðu formanns Framsóknarfélags Borgarbyggðar.
ÁHERSLUR
MÁLEFNIN
Grunnur hvers stjórnmálaflokks eru málefnin. Í Framsókn er málefnanefnd sem sér sérstaklega um málefnastarf flokksins fyrir hvert flokksþing og mótar nýjar ályktanir og gerir breytingar á þeim ályktunum sem áður hafa verið samþykktar.
Einnig fer fram mikið málefnastarf í framsóknarfélögum fyrir hverjar kosningar og aðalfundi.
Það er mikilvægt þegar málefnastarfi lýkur að forgangsröðun málefna sé skýr og að kjörnir fulltrúar hafi sterkt umboð frá grasrótinni til að fylgja eftir mikilvægum málum.
Til þess að það sé möguleiki þarf samt að fara í vinnu á því að kynna málefnin, bæði gagnvart þjóðinni sem og grasrótinni.
Hlutverk ritara gagnvart málefnastarfinu felst í því að styðja við málefnanefnd flokksins, skipuleggja fundi og samráð með grasrótinni um allt land og aðstoða við að koma málefnum flokksins á framfæri eftir að þau hafa verið samþykkt á Flokksþingi.
SÝNILEIKI
Framsóknarfólk á það til að vera mjög hógvært um verk sín og stefnu.
Það er mikilvægt að kjörnir fulltrúar og forysta Framsóknar séu sýnileg á fundum, fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og viðburðum. Við þurfum að klára að móta stefnu í því hvernig við tryggjum það að fólk í samfélaginu viti hvað kjörnir fulltrúar Framsóknar eru að gera magnaða hluti.
Ég hef unnið að því í haust að safna saman upplýsingum um það sem sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar hafa verið að gera í sínum sveitarfélögum og það er mikilvægt að vinna enn meira að því.
FÓLKIÐ
Hlutverk ritara er fyrst og fremst að vinna fyrir og með fólkinu í Framsókn. Það þarf að tryggja að það séu regluleg samskipti, bæði í félögum þar sem er virk starfsemi og þar sem virknin er minni.
Grasrót Framsóknar er fjölbreytt. Það eru meðal annars Framsóknarfélög í sveitarfélögum, félög kvenna, félög ungra, launþegaráð, sveitarstjórnarráð, málefnanefnd, fræðslu- og kynningarnefnd og kjördæmissambönd. Það er mikilvægt að vel sé haldið utan um félögin, enda er hvert og eitt félag að glíma við sínar áskoranir og eru með sín tækifæri. Það er mikilvægt að forysta flokksins þekki vel starfsemi þessara félaga og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.
Fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar þarf fólk að sjá ástæðu til þess að bjóða fram undir merkjum Framsóknar. Hluti af því sem hægt er að gera er að aðstoða við mótun framboða, skipulags, vefsíðu, gerð stefnumála og annað sem þarf að gera fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Í þeim málum hef ég aflað mér mikillar reynslu og er tilbúin að aðstoða Framsóknarfélög um allt land.
GRASRÓT
Til að tryggja sterka grasrót þarf að vera gott utanumhald og regluleg nýliðun. Það er stór ákvörðun hjá fólki að taka þá ákvörðun að taka þátt í stjórnmálastarfi og til að styðja við hana er mikilvægt að halda reglulega mismunandi viðburði og fundi sem og að halda vel utan um þau sem eru að mæta á sinn fyrsta viðburð.
Ég vil leggja mikla áherslu á að styðja við nýliðun og hef mikla reynslu af því frá því að ég var formaður SUF. Á þeim tíma byrjuðum við með skuggaráðuneytin, þar sem ungt Framsóknarfólk fundaði mánaðarlega með ráðherrum Framsóknar. Við vorum einnig með rafræn málþing um stór málefni og fundum okkur tilefni til þess að gera okkur glaðan dag. Því að það þarf að vera gaman og áhugavert til þess að fólk vilji taka þátt í starfi Framsóknar.