top of page
Search
  • Writer's pictureLilja Rannveig Sigurgeirsdóttir

Framboðsræða til formanns SUF 2018

Á Sambandsþingi Ungra Framsóknarmanna 2018 á Bifröst bauð ég mig fram til formanns sambandsins og hlaut kjör. Eftirfarandi ræða er framboðsræða mín:


Kæru vinir.

Það er mikill heiður að fá að ávarpa þessa samkomu og finnst mér frábært að vera komin á þennan stað.

Ég er hér vegna þess að ég vil bjóða fram krafta mína sem formaður Sambands Ungra Framsóknarmanna. Til að kynna mig betur þá heiti ég Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og bý í Bakkakoti hér í Borgarfirði. Ég stunda nám við Háskóla Íslands og er að læra grunnskólakennarann.

Ég hef tekið þátt á mörgum sviðum í SUF, síðastliðin ár og mér hefur þótt þetta ótrúlega skemmtilegt. Ég hef mikinn áhuga á því að byggja upp starfið enn frekar og að gera SUF að sterku afli.

Við megum vera róttæk.

Við megum vera frek á flokkinn.

Við getum ýtt á þingflokkinn á að koma með breytingar og við getum gefum þeim hugmyndir. Það þarf ekki allt að koma fram í fjölmiðlum en það er mikilvægt að ályktanir og stefnur SUF verði ekki að neinu heldur að við nýtum okkur þær sem afl til raunverulegra breytinga. Því við eigum í góðu sambandi við þingmenn flokksins og ráðherra. Og ein lítil ályktun getur orðið að raunveruleika. Þess vegna er mikilvægt að við nýtum okkur þetta. Það er mjög margt sem ég myndi vilja gera og ég veit að það eru margir hér inni með miklar hugmyndir um það hvernig bæta má samfélagið. Þetta er mjög góður grundvöllur til þess.

Formaður SUF sér ekki um þetta allt einn. Það hefur sýnt sig og sannað. En hann þarf að vera leiðandi afl í þessum málum. Koma þeim tillögum, sem koma frá fólki í SUF, áfram og gera þær að raunveruleika. Það eru mjög mörg málefni sem brenna á ungu fólki í dag: Jafnrétti, geðheilsa, nám, námslán og styrkir, fæðingarorlof, leikskólapláss, matvælaöryggi og umhverfismál, atvinna og byggðamál og svona mætti lengi upp telja. En breytingar byrja einhvers staðar og þar kemur SUF inn. SUF er vettvangur breytinga.

En SUF er ekki bara það. Sambandið gegnir líka mikilvægu félagslegu gildi. Þetta er staður fyrir fólk til að hittast sem hefur svipaðar pólitískar skoðanir. Ég hef eignast marga mjög góða vini í SUF og mér þykir óskaplega vænt um það. Þess vegna skiptir virkni innan sambandsins miklu máli, alls staðar á landinu. FUF félögin eru góð til þess og því er mikilvægt að virkja þau sem flest aftur. En sveiflur eru á pólitískum áhuga milli ára og það þarf að taka það inn í reikninginn. Núna er góður tími til að byrja þar sem margir nýjir komu inn í flokkinn í tveimur kosningum með stuttu millibili. Við þurfum að nýta okkur það.

SUF gegnir mörgum hlutverkum og í raun gæti hlutverk þess hafa breyst mikið frá því þegar það var fyrst stofnað. En það er líka nauðsynlegt að við fylgjum nútímasamfélagi og það sama á við um flokkinn. Við erum framtíð flokksins. Því tel ég nauðsynlegt að formaður SUF leiði sambandið áfram og geri sambandið að afli breytinga innan flokksins. Ég tel mig hafa fulla getu, tíma og áhuga til þess.

Þess vegna vona ég kæru vinir að þið treystið mér til þess starfs og kjósið mig sem formann SUF.

Takk fyrir.135 views0 comments

Comments


Commenting has been turned off.
Post: Blog2_Post
bottom of page