Þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi
MÁLEFNI
Þau mál sem ég brenn fyrir eru fjölbreytt. Hér má sjá sum þeirra mála.
UNGMENNI
Mikilvægt er að ungmenni um allt land hafi tækifæri til þess að stunda íþróttir, tómstundir, áhugamál og koma skoðunum sínum á framfæri. Sérstaklega þarf að gæta að því að kostnaður komi ekki í veg fyrir að ungmenni geti tekið þátt í skipulögðu ungmennastarfi.
Aðkoma ungs fólks að stjórnsýslu þykir mér einnig vera mikilvæg og tel ég að öll sveitarfélög ættu að launa ungmennum fyrir nefndarstörf sín í þágu sveitarfélagsins, rétt eins og aðrar nefndir. Ungmennaráð eru ein besta leiðin fyrir ungt fólk til þess að byrja að taka þátt í stjórnsýslunni í sínu nærumhverfi.
MENNTAMÁL
Menntun á að vera möguleiki fyrir alla óháð efnahag og búsetu.
Ég hef barist fyrir því að heimavist sé í boði fyrir framhaldsskólanemendur af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðinu svo að þeir nemendur sem flytja í bæinn til að stunda nám geti búið í öruggu húsnæði.
Ég hef einnig barist fyrir auknu fjarnámi, enda á fólk að eiga möguleika á því að geta stundað nám á sínum forsendum. Aðstæður námsmanna eru mismunandi.
Leikskólavist barna þarf að vera tryggð frá 1 árs aldri, þegar að fæðingarorlofi lýkur.
BYGGÐAMÁL
Höldum öllu Íslandi í byggð. Mörg minni bæjarfélög hafa frábær tækifæri fyrir til uppbyggingar en til þess þarf stuðning og skilning á aðstæðum þeirra. Húsnæðismál, atvinnutækifæri og samgöngur skipta höfuðmáli til þess að viðhalda byggð um allt land.
Stuðningur við fólk sem býr fjarri grunnþjónustu eða býr í brothættum byggðum ætti ávalt að standa til boða. Meðal aðgerða sem hægt væri að nýta til að byggja upp svæðin væru skattaafslættir til einstaklinga og fyrirtækja, ríkisstyrkir til að halda uppi þjónustu, öruggar samgöngur, kerfisbundin aðstoð og tækifæri til nýsköpunar.
Störf án staðsetningar og fjarnám geta gert fólki kleift að mennta sig og starfa án þess að flytja. Mér þykir það skipta máli, sérstaklega fyrir ungt fjölskyldufólk, því þá gefst fólki tækifæri til þess að búa hvar sem er á landinu og þar af leiðandi styðja við uppbyggingu minni byggða. Í sambandi við það þykir mér einnig mikilvægt að í boði séu enn fleiri starfsstöðvar þar sem fólki gefst tækifæri á að starfa og læra. Þróun í þessum málum hefur verið mjög jákvæð síðustu misseri.
UMHVERFISMÁL
Ísland þarf að ganga enn lengra til þess að mæta þeim kröfum sem nauðsynlegar eru vegna hnattrænnar hlýnunar. Aðgerða er þörf.
Einnig þarf bæði hugarfarsbreytingu og aðhald frá stjórnvöldum vegna úrgangs, bæði frá heimilum og fyrirtækjum. Við hendum alltof miklu og getum gert enn betur þegar kemur að endurvinnslu.
SAMGÖNGUR
Mikilvægt er að vegakerfið í landinu sé öruggt. Slys og óhöpp vegna ástands vega ættu ekki að eiga sér stað.
Ég vil að við einbeitum okkur að öðrum orkugjöfum heldur en olíu og bensíni fyrir farartæki og auðveldum aðgengi að þeim.
Ég er ánægð með samgönguáætlun og þá framtíðarsýn sem hún gefur. Aftur á móti þykir mér mikilvægt að sérstaklega verði þrýst á að Sundabraut komi til framkvæmda sem fyrst og að breikkun Vesturlandsvegar verði lokið eins fljótt og mögulegt er. Mörg hundruð Vestlendinga sækja vinnu og skóla á höfuðborgarsvæðið á hverjum degi og því mikilvægt að samgöngukerfið sé öruggt og skilvirkt á því svæði.
SÉRFRÆÐIÞJÓNUSTA
Mikilvægt er að sérfræðiþjónusta sé möguleg þeim sem hana þurfa. Í mörgum tilvikum þarf að leita að rót vandans og halda áfram að breyta heilu kerfunum, eins og Framsókn hefur gert á yfirstandandi kjörtímabili. Biðlistar og gjöld fyrir sálfræðinga, talmeinafræðinga, greiningar og lækniskoðanir eru ekki í ásættanleganlegu ástandi og þarf átak á þessum sviðum.
MATVÆLI
Ég vil að upprunamerkingar á matvælum séu með eins skýrum hætti og mögulegt er. Mikilvægt er að innflutt matvæli séu merkt upprunalandi og að neytandinn viti alltaf hvað hann er að kaupa.
Nýsköpun í landbúnaði mun skipta verulegu máli á næstum árum vegna breyttra neysluvenja þjóðarinnar. Stuðningur við nýsköpun gagnast bæði einstaklingum og samfélagi.
Þau sem starfa við matvælaframleiðslu eru að vinna eina nauðsynlegustu vinnu sem fyrirfinnst og því er mikilvægt að fólk sjái tækifæri í þeirri vinnu.
MANNRÉTTINDI
Ísland á að vera fremst í flokki þegar kemur að réttindum hinsegin fólks.
Enginn á að þurfa að hafa áhyggjur af afkomu eða öryggi. Gæta þarf að því að kerfið fylgi þróun samfélagsins. Ekki á að líðast að börn búi við fátækt eða að fólk hafi ekki þak yfir höfuðið.