Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):
Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir kynninguna áðan. Þegar ég leit yfir fjármálaáætlun fór ég að velta fyrir mér þeim tengslum sem koma fram milli byggðamála og háskóla. Það eru töluverð tækifæri sem felast í því að styrkja háskólastarf utan höfuðborgarsvæðisins. Það er hægt að gera það á marga vegu. Í fjármálaáætlun segir, með leyfi forseta:
„Menntun og nýsköpun verði gert hátt undir höfði í öllum landshlutum m.a. með eflingu stoðkerfisins og þar með starfsemi þekkingarsetra vítt um land. Örugg fjarskipti gegna þar lykilhlutverki.“
Ég vil hrósa hæstv. ráðherra fyrir þetta. Það er hægt að styrkja starfsemi háskólanna og auka sérfræðiþekkingu í öllum landshlutum á fjölbreyttan hátt. Það er einnig talað um styrkingu fjarnáms og dreifnáms í fjármálaáætluninni. Ég vil heyra nánar hver sýn ráðherrans er á samstarf háskólanna á landsbyggðinni og hvernig hægt er að vinna meira með það, af því að við búum svo vel að hafa frábærar háskólastofnanir úti á landi, um allt land, og tækifærin til samstarfs eru því mjög mörg. Það er það sem ég myndi vilja fá að heyra nánar um, sem sagt hvernig hægt er að styrkja samstarfið á milli skólanna.
Í fjármálaáætlun kemur einnig fram að tryggja eigi fjárveitingar til stuðnings við greinina sem gera Ísland að sjálfbærri þjóð. Þar eru nefndar greinar eins og tæknigreinar, matvælaframleiðsla og sjálfbærni, þannig að ég myndi líka vilja heyra hver sýn ráðherrans er á það. Er ætlunin að auka enn frekar samstarf atvinnulífs og háskólanna?
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir og tek undir að það eru svo gríðarleg tækifæri til samstarfs háskólanna, til að bjóða upp á fjölbreyttara nám, til að styðja við byggðir landsins, til að tengja háskólana við þekkingarsetur í nýsköpun, Fab Lab-smiðjur, og alveg niður í grunnskólana í samfélögunum. Það er auðvitað það sem við erum að reyna að gera með nýju ráðuneyti.
Samstarfsnet opinberu háskólanna er líka gríðarlega mikilvægt og þar eru mörg tækifæri. Það sem hefur kannski ekki náð fram að ganga og þarf að vinna að eru markmið sem sett voru um sameiginlega umsóknargátt, að það verði greint betur hvort hægt sé að samþætta stoðþjónustu og fleira til að spara fjármuni og verja þeim í eitthvað annað, en auðvitað líka að auka samvinnu. Við sjáum að samvinna skólanna gengur vel, eins og fyrir norðan þar sem samvinna Háskólans í Reykjavík um tölvunarfræðinám við Háskólann á Akureyri er gríðarlega góð og er gott dæmi um hvað samstarf háskólanna getur reynst vel fyrir svæðin til að uppfylla þarfir samfélagsins fyrir menntun. Og það þurfum við líka að sjá og munum vonandi sjá innan tíðar á Austurlandi og á fleiri stöðum þar sem við getum boðið upp á fjölbreyttara nám úti á landi með stuðningi frá öðrum skólum, hvort sem það eru háskólar á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar á landsbyggðinni. Því fylgja nefnilega mikil tækifæri.
Varðandi tengslin við atvinnulífið og annað þá tengist það þessu líka. Þar er fjármögnunarlíkanið tólið sem ráðherrann hefur og er fjallað mest um í fjármálaáætluninni, tólið sem maður getur haft til að hafa hvatningu í líkaninu til að fjölga í greinum þar sem þarfir samfélagsins eru. Þannig hvatar held ég að séu jákvæðir til frambúðar inn í háskólakerfið okkar af því að við vitum alveg hvar kallað er eftir tæknimenntun, við vitum hvar kallað er eftir hjúkrunarmenntun o.s.frv. Þar getum við búið til jákvæða hvata fyrir háskólana sem ég er viss um að þeir eru tilbúnir til að taka á móti.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):
Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og tek undir það sem áður kom fram, þ.e. að við vitum hvar við þurfum sérfræðiþekkingu. Ég vil þá nefna eitt sem kemur fram í lögum um Menntasjóð námsmanna. Þar er möguleiki á sérstakri ívilnun gagnvart svæðum sem þurfa á sérfræðiþekkingu að halda. Þetta er í 28. gr. í lögum um Menntasjóð námsmanna. Ef það vantar sérfræðiþekkingu á ákveðnum svæðum þá geta samfélög eða sveitarfélög óskað eftir því að fá þá sérfræðiþekkingu til sín og þá er endurgreiðslu á námslánum seinkað með sérstakri ívilnun. Þetta getur verið rosalega stórt tækifæri fyrir sveitarfélög að nýta þetta, minni byggðarlög sem þurfa á sérfræðiþekkingu að halda, þurfa lækna, þurfa sálfræðinga, talmeinafræðinga, þurfa eitthvað í iðngreinum eða öðru. Það eru gríðarleg tækifæri í þessu. Þetta virðist aftur á móti ekki vera vel nýtt. Veit hæstv. ráðherra hvernig þetta er nýtt? Og ef þetta er ekki vel nýtt, er þá á dagskrá að auglýsa þetta enn frekar og gefa þar af leiðandi minni sveitarfélögum tækifæri til að fá frekari sérfræðiþekkingu til sín?
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):
Virðulegur forseti. Þetta ákvæði var sett inn í lögin núna 2020 og er sérstök ívilnun um að útbúa auglýsingu sem þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Þetta hefur ekki verið nýtt hingað til, það er talið talsvert viðkvæmt mál fyrir ráðherra að rökstyðja hvernig þú velur þá námsgreinar, hvaða námsgrein ætti að fá ívilnun ofar öðrum. Skilyrðin eru þau að Byggðastofnun þurfi m.a. að vinna skýrslu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um mikilvægi þess að bregðast við ákveðnum aðstæðum í ákveðnum byggðarlögum. Sú skýrsla hefur ekki verið unnin en á grundvelli þeirrar skýrslu væri hægt að skoða rökstuðning með þessu. Þetta er eitthvað sem mætti líka skoða með nýju fjármögnunarlíkani. Mörgum þykir leiðinlegt þegar rætt er mikið um fjármögnunarlíkan háskólanna. Það hljómar kannski ekki sem spennandi umræðuefni en það er raunverulega tólið þar sem hægt er að búa til rétta hvata fyrir t.d. samfélagslega mikilvægar greinar, námsgreinar, hvata fyrir færniþörf vinnumarkaðarins, þarfir samfélagsins. Í þessari umræðu er ekki bara verið að tala um að háskólar séu til fyrir atvinnulífið. Þeir eru fyrir samfélagið og samfélögin í kringum landið. Það er ótrúlega mikilvægt að við bjóðum þannig nám og hvetjum fólk til að fara í nám þar sem til verða störf í framtíðinni, þar sem til verða tækifæri og verðmætasköpun líka til lengri tíma. Þar er spennandi verkefni sem ekki hefur tekist að klára, sem hefur dregist í allt of langan tíma, þ.e. að endurskoða hið gamla fjármálalíkan þar sem helstu hvatarnir eru varðandi fjölda nemenda en ekki annað. Það er eitt af sex forgangsverkefnum sem ég hef sett mér að klára í nýju ráðuneyti. Það skiptir gríðarlega miklu máli til að við nýtum þann kraft í að geta menntað fólk fyrir þau samfélög sem kalla eftir ákveðinni menntun og þurfa lífsnauðsynlega á henni að halda.
Comentarios