Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):
Hæstv. forseti. Fólk á að geta stundað nám á sínum eigin forsendum og ljósleiðaravæðingin hefur gert okkur kleift að geta stundað nám hvar sem er, hvenær sem er, svo lengi sem við höfum nettengingu. Sjálf hef ég lært fyrir próf heima í fjárhúsunum þannig að ég hef mjög góða reynslu af því hve tæknin getur nýst okkur vel alls staðar til að læra. En aftur á móti þá virðast margar háskóladeildir á Íslandi ekki vinna í takt við þá eftirspurn sem er eftir fjölbreyttu fjarnámi þannig að það þarf að fara að styrkja sérstaklega uppbyggingu fjarnáms í opinberum háskólum. Heimsfaraldurinn var gott spark inn í tækniöldina en nú þarf að gæta að því að ekki verði stigið skref til baka, sem virðist vera að gerast, heldur nýta nýfengna reynslu til að bæta og byggja upp fjarnámið. Háskólar fóru að gera fyrirlestra aðgengilega á netinu og það varð til þess að mörg sem áður áttu ekki möguleika á ákveðnu námi vegna fjarlægðar höfðu tækifæri til að skrá sig í það nám sem þau vildu. Öflugt fjarnám hefur gegnt veigamiklu hlutverki í byggðaþróun með almennri hækkun á menntunarstigi og möguleikum til að bregðast við þörf fyrir menntun á ákveðnum sviðum á tilteknum landsvæðum. Ég sé að nýr samstarfssjóður háskólanna, sem er að fullu fjármagnaður miðað við þessa áætlun, 2 milljarða kr. sjóður, ætti að geta nýst vel við uppbyggingu fjarnáms, enda hefur hæstv. ráðherra sjálf sagt það. En hefur ráðherra einhverjar hugmyndir um það hvernig sjóðurinn verði nýttur innan skólanna í tengslum við fjarnámið? Tæknibúnaður er í flestum tilvikum til staðar. Hvar liggur hvatinn innan skólanna til að byggja upp fjarnámið?
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):
Virðulegur forseti. Það sem hv. þingmaður kemur inn á er einmitt það sem ég hef heyrt á ferðum mínum um landið. Það er mikill og ríkur vilji ungs fólks, og svo sem fleiri, að meira aðgengi sé að háskólanámi í fjarnámi. Skólarnir finna þetta líka. Það þurfa samt ekki allir háskólar að verða fjarnámsskólar. Það þurfa ekki allir að setja áherslur sínar á það af því að það þarf líka að tryggja gæði námsins þegar það er sett í fjarnám. Það sem ég gerði því var að taka saman þá fjármuni sem ég mögulega gat til að setja upp þennan samstarfssjóð háskólanna og búa þannig til fjárhagslegan hvata fyrir háskólana til að fara í samstarf og nefndi sérstaklega fjarnám og nám óháð staðsetningu. Hvernig verður sjóðurinn nýttur innan skólanna? Við erum með mjög góð dæmi. Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Akureyri eru í frábæru samstarfi um tölvunarfræði þar sem tölvunarfræði er kennd frá Háskólanum í Reykjavík, af Háskólanum á Akureyri fyrir norðan og þeir eru að fara að endurspegla sama nám núna fyrir austan í fjarnámi. Þarna er Háskólinn á Akureyri að nota sérstöðu sína sem góður fjarnámsskóli til að kenna nám úr öðrum skóla. Þetta væri hægt að gera í miklu fleiri greinum og það er vilji háskólanna að gera slíkt. Eftir samtöl mín um samstarfssjóðinn þá kom þetta einmitt á daginn, skólarnir eru tilbúnir að fara hraðar í að kenna fjölbreyttara nám sem einmitt er kallað eftir. Við getum nefnt tæknifræði, sem gríðarleg þörf er fyrir um allt land. Það er vilji til að fara í slíkt samstarf, fá styrk úr þessum samstarfssjóði til að ýta undir meira fjarnám. Ég er mjög spennt fyrir að fylgjast með þessu og tel að þetta sé fyrsta leiðin sem farin er til að búa til fjárhagslega hvata fyrir háskólana til þess einmitt að stíga skref í átt að (Forseti hringir.) meira fjarnámi sem skólarnir finna auðvitað vel að ákall er eftir í samfélaginu (Forseti hringir.) og ekki síst þegar við erum í samkeppni við skóla erlendis og þegar stafvæðing náms verður miklu meiri en hún er í dag.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):
Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og ég er mjög ánægð með þetta svar. Mér dettur í hug að spyrja hvort símenntunarmiðstöðvarnar séu hluti af því sem á að koma inn í sjóðinn. Þær skipa stóran sess á þeim svæðum þar sem háskólarnir eru almennt ekki með neitt starf. Er hugsunin að efla þau svæði sem hafa einungis símenntunarmiðstöðvar? Öflugt fjarnám getur auðveldað íslenskum háskólum að koma til móts við kröfur atvinnulífsins, landsbyggðanna og einstaklinga sem búa við mjög ólíkar aðstæður. Svo langar mig að spyrja: Hefur hæstv. ráðherra eitthvað hugsað sér að bæta stuðningskerfi við kennara í tengslum við fjarnám? Nú er tæknikunnátta kennara mjög misjöfn þannig að það er spurning hvort farið verði sérstaklega í að styrkja tæknikunnáttu þeirra. Við skulum hafa í huga að áhersla á fjarnám háskólanna er til að hækka menntunarstig landsmanna allra og auka jafnan aðgang að námi og það er því til mikils að vinna að ráðherra sé með okkur um borð því að það þarf að standa til boða alls staðar.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):
Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa brýningu, það er margt rétt sem hv. þingmaður kemur inn á. Hún byrjaði fyrri spurningu sína einmitt á mikilvægi nettengingar sem er grunnurinn, sem skýrir svolítið af hverju fjarskiptin eiga svo vel heima með þessum málaflokkum, ekki bara til að gæta þess að tækifæri séu um allt land, hvort sem það er fyrir nemendur eða fyrir fyrirtæki, heldur líka fyrir uppbyggingu hátæknifyrirtækja um allt land sem er svo stór partur af nýsköpuninni. Og markmiðin eru mjög skýr, að við séum fyrsta gígabætalandið í heimi þar sem gríðarlega góð nettenging er hvar sem er á landinu. En hv. þingmaður kemur hér inn á símenntunarmiðstöðvarnar og þær eru undir öðru ráðuneyti en allt samstarf ýmissa skóla við þessar stöðvar eða þekkingarsetrin sem heyra undir mitt ráðuneyti verður til bóta og er eitthvað sem verður hægt að líta til í þessum sjóði. Ég held að hægt sé að horfa svolítið heildrænt á þetta og nýta þessa aðstöðu sem er að skapast svo víða í samfélögum, hvort sem það er til starfa óháð staðsetningu eða til náms óháð staðsetningu. Ég held að í því felist tækifæri til að gefa fleirum greiðari aðgang að háskólanámi. Við erum líka að hefja samstarf við menntavísindasvið Háskóla Íslands um bætt nám kennara og það eru aðeins umræður um það, en þar er auðvitað sífelld þróun af því að heimurinn breytist hratt, hvort sem við erum að tala um nám fyrir leikskólakennara eða háskólakennara, og þar komum við einmitt inn á þetta, að kennarar séu undirbúnir fyrir tækniöld. Það reyndist sumum skólum auðvelt en öðrum svolítið erfitt. En allt kom það í heimsfaraldri Svo erum við með skóla sem hafa undirbúið vel sitt fjarnám eins og Bifröst, sem hefur mikinn áhuga á að fara í samstarf við aðra skóla og varpa námi þeirra inn í fjarnámið sem þau hafa þróað vel og staðist gæðakröfur. Ég held að við séum alla vega búin að skapa fyrstu hvatana (Forseti hringir.) til að stíga skref í þessa átt og ég mun fylgja þessu fast eftir.
Comentarios