Ég vil byrja á að þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að koma hingað og ræða í þingsal um slysasleppingar í sjókvíaeldi. Slysasleppingar hafa verið mikið í umræðunni síðustu vikur í kjölfarið á því að það uppgötvaðist gat á netapoka í sjókví í Patreksfirði. Í þá kví vantaði 3.500 fiska samkvæmt tilkynningu MAST. Þegar málið var skoðað nánar kom í ljós að stór hluti laxanna var kynþroska og það er alvarlegt mál. Sjókvíaeldisfyrirtæki hafa leið til að koma í veg fyrir að fiskar verði kynþroska og það er með ljósastýringu. Verið er að rannsaka þessa dagana hvernig það gat gerst að fiskarnir urðu kynþroska og mæla kynþroskahlutfall í öðrum fjörðum til að komast að því hvort þessi atburður sé undantekning. Þar til í ágúst höfðu, samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknastofnunar, veiðst átta eldislaxar í skráðum veiðiám frá árinu 2016 þrátt fyrir nokkurn fjölda tilkynntra strokatburða á tímabilinu. Því virðist kynþroskinn öllu máli skipta er varðar þessa sprengju í uppgöngu eldislaxa í ár. Sjókvíaeldi er nefnilega einungis leyft á Vestfjörðum og Austfjörðum með mjög miklum skilyrðum til þess að reyna að koma í veg fyrir að eldislax komist í laxveiðiárnar. Ástæðan fyrir því er að veiðiréttarhafar og landeigendur, sem í mjög mörgum tilvikum eru bændur, hafa í mörg ár haft miklar áhyggjur af því að eldislaxar blandist íslenska villta stofninum. Það er því mikið í húfi fyrir þau sem fá miklar tekjur af laxveiðiánum sínum og því skiptir miklu máli að hægt sé að tryggja hreinleika villta laxastofnsins sem og trúverðugleika og ímynd atvinnugreinarinnar.
Sjókvíaeldi hefur vaxið með mjög miklum hraða síðastliðin ár. Áhrif sjókvíaeldis á Vestfirði t.d. er óumdeilanlegt. Það er nefnilega mikið í húfi fyrir samfélögin í kringum sjókvíaeldið. Fólk þarf að geta treyst því að þetta sé vel gert. Þegar upp koma mál eins og þessi slysaslepping þá eru áhrifin víðtækari en bara á þetta eina fyrirtæki. Áhrifin dreifast á önnur fyrirtæki og samfélög á svæðinu þar sem miklir hagsmunir eru einnig undir með fjölda beinna og óbeinna starfa tengdum greininni.
Hæstv. forseti. Síðustu ár hafa margir kallað eftir auknu eftirliti í sjókvíaeldi til að tryggja að allt sé gert með bestu mögulegum aðferðum og öllum skilyrðum sé fylgt eftir. Vestfirðingar hafa kallað eftir því að eftirlitsmenn séu staðsettir í nálægð við fiskeldið. Þeir hafa talað fyrir daufum eyrum í mörg ár.
Í byrjun árs gaf ríkisendurskoðandi út skýrslu um lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit í sjókvíaeldi. Í þeirri skýrslu komu fram margar ábendingar og ég ætla að nefna hér nokkrar, með leyfi forseta. Ein ábending var um að það þyrfti að efla eftirlit Matvælastofnunar og það þyrfti að vinna að því markvisst með matvælaráðuneytinu. Þar var nefnt að það þyrfti að gera stofnuninni kleift að sinna óundirbúnu eftirliti og leggja áherslu á eftirlit með skráningum, upplýsingagjöf og innra eftirliti fyrirtækjanna.
Það kom líka ábending um mótvægisaðgerðir og vöktun vegna strokulaxa þar sem matvælaráðuneytið var hvatt til þess að endurskoða ákvæði laga og reglna um fiskeldi hvað snýr að stroki. Þar var rætt um mögulegar skyldur rekstrarleyfishafa til vöktunar í nærliggjandi ám. En miðað við það hvað eldislaxarnir eru að veiðast á stóru svæði þá mætti kannski spyrja af hverju einungis er verið að horfa á nærliggjandi ár. Það virðist vera þörf á því að hafa vöktun í laxveiðiám um allt land. Því spyr ég ráðherra: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra fara í aðgerðir til að tryggja eftirlit áður en farið verður í frekari lagasetningu? Hvers vegna var ekki farið að tryggja strax aukið eftirlit í sjókvíaeldi eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi í vor? Hversu hörð viðurlög telur ráðherra að ættu að vera gagnvart stórum slysasleppingum og takmörkuðu innra eftirliti? Með hvaða aðgerðum hyggst ráðherra koma til móts við áhyggjur um erfðablöndun í laxveiðiám?
Comments