Í síðustu viku fylgdist ég með fjölda barna taka sæti í þessum sal. Þau voru hér að kynnast okkar störfum og svara spurningum frá hæstv. forseta Alþingis og voru að fá betri skilning á þeirri vinnu sem við erum í hér inni. Líka hafa margir grunnskólar haldið barnaþing þar sem farið er í svona viðburði, t.d. að kynnast störfum kjörinna fulltrúa, eða svona valdeflandi viðburði.
Það var barnaþing í Hörpu í síðustu viku og þar sem börn voru að kynnast barnasáttmálanum. Þau voru að skoða hvaða réttindi þau hefðu. Það skiptir gríðarlegu máli að börnin geti fengið að sjá og fundið fyrir því að þau hafa rödd. Þetta eru tæki sem við höfum til að gefa næstu kynslóðum frekari tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri og mögulega til framkvæmda. Það skiptir gríðarlegu máli að við hér og kjörnir fulltrúar hlusti á næstu kynslóðir. Við höfum tekið nokkur skref til að tryggja það. Við höfum sett það í lög að sveitarfélög eigi að hafa sérstök ungmennaráð til að tryggja ungmennum sérstakan vettvang innan sveitarfélaga til að koma sínum málum á framfæri. Það virðist þó vera að sum sveitarfélögin nýti sér ekki þessi ungmennaráð eða noti þau jafnvel til skrauts og á þau sé ekkert raunverulega hlustað. Ég var nýlega í Albaníu með nokkrum ungum þingmönnum í Evrópu og þar funduðum við með ráðherrum og kjörnum fulltrúum um stöðu ungs fólks þar í landi. Helmingur þjóðarinnar í Albaníu er yngri en 30 ára og unga fólkið er að flytja úr þorpunum, er að flytja úr landi vegna þess að það finnur að á það er ekki hlustað. Þá sér það ekki framtíð sína fyrir sér í landinu eða í þorpunum, í sínum sveitarfélögum. Því skiptir gríðarlegu máli að við hlustum á unga fólkið okkar.
Comments