top of page
Search
Writer's pictureLilja Rannveig Sigurgeirsdóttir

Ræða: Ungir bændur



Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp í dag til að ræða um innlenda matvælaframleiðslu og unga bændur. Matvælaframleiðsla er ekki sjálfsagður hlutur. Á hverjum degi heldur fjöldi fólks út í daginn til að vinna að því að skapa og afla matvæla fyrir okkur, bæði á sjó og landi, og það er ekki sjálfsagt. Það er virðingarvert og forréttindi að geta unnið við matvælaframleiðslu og þess vegna er mjög mikilvægt að við hlúum að og styðjum þau sem hafa það að atvinnu að skapa og afla fæðu, bæði fyrir sig og fyrir aðra í samfélaginu. Það var rætt við unga bændur og um málefni þeirra í Bændablaðinu sem kom út 8. september síðastliðinn. Ég næ því miður ekki að nefna allt í þeirri grein sem mikilvægt væri fyrir þingheim að heyra og því mæli ég með því að þingmenn lesi þessa grein. Þar kemur fram að einn helsti vandi ungra bænda er fjármögnunarhliðin. Við höfum farið í margs konar verkefni síðastliðin ár sem hafa nýst mjög vel en það er mikilvægt að vera í stöðugri endurskoðun. Við þyrftum að skoða betur nýliðastyrkinn og horfa til þess að styrkurinn verði meira í samræmi við þær fjárfestingar sem farið er í. Við þyrftum einnig að skoða betur skatta- og lánaumhverfið, bæði hjá þeim sem eru að taka við búi og þeim sem eru að hætta. Við höfum verkfærin og við höfum stofnanirnar en það þarf að gæta að því að það sé meiri samfella í þessu kerfi til að geta styrkt þessa mikilvægu grunnstoð samfélagsins. Það eru fjöldamörg tækifæri í íslenskum landbúnaði og við sem sitjum á þingi þurfum að halda áfram að styðja við þau tækifæri.

1 view0 comments

Recent Posts

See All

Fyrirspurn: Heilbrigðisstofnun Vesturlands

Fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um Heilbrigðisstofnun Vesturlands.     1.    Hversu margir íbúar voru skráðir á hverja heilsugæslustöð...

Fyrirspurn: Kvíabryggja

Fyrirspurn til dómsmálaráðherra um Kvíabryggju.     Hyggst ráðherra ráðast í aðgerðir til að bæta aðstæður á Kvíabryggju, t.d. með...

Comments


bottom of page