Hæstv. forseti. Haustið 2020 markaði tímamót í sögu kvikmyndagerðar á Íslandi þegar hæstv. menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, lagði fram fyrstu heildstæðu stefnu íslenskra stjórnvalda á sviði kvikmynda. Markmiðið með stefnunni er að skapa auðuga kvikmyndamenningu sem styrkir sjálfsmynd þjóðarinnar, eflir íslenska tungu, býður upp á fjölbreyttari og metnaðarfyllri kvikmyndamenntun, styrkir samkeppnisstöðu greinarinnar og stuðlar að því að Ísland verði þekkt sem alþjóðlegt vörumerki á sviði kvikmyndagerðar. Með kvikmyndastefnunni hafa íslensk stjórnvöld viðurkennt vaxandi hlutverk menningar, lista og skapandi greina á Íslandi.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Fela þær breytingar í sér að lagt er til að fyrir afmörkuð stærri verkefni sé hlutfall endurgreiðslu framleiðslukostnaðar 35% og að þau uppfylli öll skilyrðin sem talin eru upp í frumvarpinu en fyrir önnur verkefni sem uppfylla skilyrði laganna sé hlutfallið áfram 25% eins og verið hefur. Þessar tillögur eru í samræmi við þær áherslur sem koma fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að efla alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis. Jafnframt er frumvarpið í samræmi við áherslur og aðgerðir í kvikmyndastefnunni fyrir Ísland til ársins 2030 sem var gefin út í október 2020.
Þær áherslur sem koma fram í stjórnarsáttmálanum eru, með leyfi forseta, orðaðar svona:
„Kvikmyndagerð hefur orðið sífellt mikilvægari þáttur í íslensku atvinnu- og menningarlífi síðustu ár. Tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis verður eflt. Við ætlum að styðja enn frekar við greinina með hærri endurgreiðslum á skýrt afmörkuðum þáttum til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi og tryggja aukinn fyrirsjáanleika í fjármögnun kerfsins. “
Ég tel sérstaka ástæðu til að þakka hæstv. menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, fyrir það hvernig hún hefur staðið að þessu máli. Framsókn hefur lengi talað fyrir mikilvægi þess að styðja við kvikmyndagerð í landinu ásamt því að hækka endurgreiðslur af framleiðslukostnaði í 35% líkt og gert er í löndum sem keppa við Ísland um verkefni. Kvikmyndagerð hefur fyrir löngu sannað gildi sitt sem listgrein og atvinnugrein. Kraftmikil kvikmyndamenning eflir sjálfsmynd þjóðarinnar. Kvikmyndir og sjónvarpsþættir eru listgrein sem speglar samtímann og gerir sögu og menningararfi skil.
Ferðavenjukönnun hefur sýnt að tæplega 40% þeirra sem koma hingað til lands tóku ákvörðun um að ferðast til Íslands eftir að hafa séð landið í sjónvarpi eða á hvíta tjaldinu. Heildarvelta ferðaþjónustunnar af slíkum ferðamönnum hleypur á mörgum milljörðum. Íslensk kvikmyndagerð skapar á fjórða þúsund beinna og afleiddra starfa og laðar að erlenda fjárfestingu. Í því felast gríðarleg verðmæti fyrir ríkissjóð. Við í Framsókn höfum talað fyrir mikilvægi þess að skapa fjölbreytt atvinnutækifæri. Kvikmyndagerð er skapandi atvinnugrein sem fellur vel að þeim hugmyndum en mikilvægt er að hún fái viðeigandi stuðning. Fjórða iðnbyltingin kallar eftir hugviti, hátækni, sköpun og sjálfbærum lausnum og kvikmyndagerð er allt þetta.
Hæstv. forseti. Við í Framsókn skiljum mikilvægi þess að styðja við íslenska kvikmyndagerð. Á okkar vakt hefur verið staðið fyrir stofnun Kvikmyndasjóðs Íslands og Kvikmyndasafns Íslands ásamt því að komið var á fyrstu endurgreiðslum í kvikmyndagerð. Sagan hefur sannað gildi þessara mikilvægu aðgerða og undirstrikað tækifærin sem felast í kvikmyndagerð fyrir land og þjóð. Framtíðin er björt og það verður ánægjulegt að taka þátt í því að styðja menningarmálaráðherra og ríkisstjórnina í því verkefni að ná enn lengra fyrir kvikmyndagerð í landinu.
Lög um tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar tóku fyrst gildi árið 1999. Þá var endurgreiðsluhlutfallið 12%. Fyrsta endurgreiðslan fór fram árið 2001 og þá hafði Eftirlitsstofnun EFTA áður samþykkt lögin sem lögmætt ríkisaðstoðarkerfi. Hlutfallið hækkaði síðan í 14% með breytingu á lögunum 2006 og í 20% 2009. Frá árinu 2016 hefur hlutfallið verið í 25%. Síðast voru reyndar gerðar breytingar á lögunum 2001 með vísan til skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurgreiðslukerfið.
Töluverð samkeppni er á milli landa og svæða um allan heim um að fá erlenda framleiðendur til að taka upp kvikmyndir, sjónvarpsefni og annað myndefni. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður en þær helstu eru að verkefni af þessum toga eru atvinnuskapandi, gjaldeyrisskapandi og landið öðlast kynningu erlendis sem getur skilað sér í jákvæðri ímynd og auknum tekjum af ferðamönnum ef vel tekst til. Hvatar til kvikmyndagerðar, svo sem endurgreiðsluhlutfall af framleiðslukostnaði, geta gegnt lykilhlutverki í ákvörðun kvikmyndaframleiðenda um staðsetningu verkefnis. Á alþjóðlegum samkeppnismarkaði, þar sem framleiðslukostnaður hefur náð áður óþekktum hæðum, hafa stjórnvöld ríkja í auknum mæli viðurkennt slíka hvata sem árangursríkt tæki til þess að laða til ríkisins verðmætar fjárfestingar frá erlendum aðilum í innlendum kvikmyndageira, styrkja staðbundna framleiðslu og byggja upp færni, þekkingu, atvinnutækifæri og innviði. Þetta má m.a. sjá í þeim hækkunum sem stjórnvöld víðs vegar hafa gert á endurgreiðsluhlutfalli framleiðslukostnaðar á undanförnum árum. Leiðir alþjóðlegur samanburður í ljós að slík hækkun getur falið í sér ýmis óbein áhrif til framfara, svo sem með fjölgun verkefna og innlendra starfsmanna í kvikmyndageiranum, uppbyggingu kvikmyndavera, auk þess sem það stuðlar að uppbyggingu vega og viðhaldi bygginga sem notaðar eru við tökur. Samkvæmt gildandi lögum frá 1999 er hlutfall endurgreidds framleiðslukostnaðar 25% af skilgreindum framleiðslukostnaði. Þetta gildir um alla framleiðslu sem fellur undir gildissvið laganna. Heimilt er að draga þann kostnað frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt tekjuskattslögum.
Hæstv. forseti. Tækifærin sem felast í öflugum kvikmyndaiðnaði eru fjölmörg. Við sjáum að erlendir aðilar eru farnir að sækja til landsins í auknum mæli. Auknum umsvifum í kvikmyndagerð fylgja fjölbreytt og spennandi atvinnutækifæri um allt land og þau kalla á ýmsa sérfræðiþekkingu. Á bak við eina bíómynd eru mörg handtök og mörg sérhæfð störf lista- og kvikmyndagerðarmanna. Þá skapast við framleiðslu á kvikmynd fjöldi annarra afleiddra starfa. Hótel, gistiheimili, leiðsögumenn, bílaleigur og veitingastaðir út um allt land njóta góðs af þessu. Þúsundir starfa og auknar tekjur í ríkissjóð eru skýr dæmi um jákvæð áhrif kvikmyndagerðar hér á landi og þar getum við náð enn lengra.
Framsókn lagði ríka áherslu á kvikmyndagerð fyrir síðustu alþingiskosningar en við höfum óbilandi trú á getu kvikmyndaiðnaðarins til að skapa raunveruleg verðmæti fyrir samfélagið. Áætlað er að kvikmyndagerð hafi skilað samfélaginu um 9 milljörðum kr. á síðasta ári. Þá er gert ráð fyrir áframhaldandi velgengni kvikmyndagerðar á Íslandi á komandi árum. Það er fagnaðarefni sem kemur þó lítið á óvart enda býr Ísland yfir stórum hópi af fagfólki í greininni sem vinnur frábært starf á hverjum degi, hvort sem um er að ræða leikstjóra, leikara, tónskáld, tæknimenn eða aðra. Velgengni Íslands er aðdáunarverð og hróður íslenskrar kvikmyndagerðar hefur farið vaxandi á erlendri grundu síðustu ár. Tækifærin eru mörg og þau ætlum við að grípa. Áfram veginn.
Comments