Hæstv. forseti. Við búum við læknaskort hér á landi miðað við þá heilbrigðisþjónustu sem við viljum veita. Einnig eru áhyggjur um að skorturinn verði alvarlegri á komandi árum. Fólksfjölgun og öldrun þjóðarinnar mun eðli málsins samkvæmt krefjast aukinna umsvifa í heilbrigðiskerfinu. Ásamt þessu er mannekla innan geirans eitthvað sem við könnumst of vel við þessa dagana. Við bregðumst við þessum skorti annars vegar með því að flytja inn sérmenntað fólk og hins vegar með því að tryggja íslenskum námsmönnum tækifæri til læknanáms og aukinnar sérhæfingar. Fjöldi íslenskra námsmanna heldur út í læknanám. Í kjölfarið snýr meiri hluti þeirra heim með haldbæra reynslu og sérþekkingu sem samfélagið nýtur góðs af. Þeir bætast við þann hóp sem útskrifast úr Háskóla Íslands en hann er eini háskólinn hér á landi sem útskrifar lækna. Hann tekur einungis inn 60 nema á ári sem nægir ekki til að bregðast við þeim skorti sem við horfum upp á. Þetta hafa íslenskir læknanemar sem stunda nám sitt erlendis ítrekað bent á, að þeir fái ekki sama stuðning og þeir sem læra hér heima. Það er aðallega vegna þess að þeir þurfa að greiða stóran hluta námsgjalda jafnóðum úr eigin vasa eða fá til þess stuðning annarra. Vegna þessa eru margir sem missa af tækifærinu til að gerast læknar og aðrir neyðast jafnvel til þess að hætta í miðju námi.
Forseti. Ávinningur samfélagsins af því að styðja betur við læknanema erlendis er mikill. Þá horfi ég helst til námslánakerfisins og 27. gr. laga um Menntasjóð námsmanna en þar er heimild til sérstakrar ívilnunar námsgreina. Gegnum þá heimild er hægt að gera breytingar á úthlutunarreglum á þann veg að erlendir læknanemar geti fengið lán fyrir allri sinni skólagöngu. Í ljósi aðstæðna er tilefni til þess og ég skora á hæstv. háskólaráðherra að ganga í aðgerðir þess efnis.
Comentários