Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir umræðuna sem við eigum hér í dag og hæstv. ráðherra fyrir sín svör og þá umræðu sem hefur átt sér stað hérna, þessa sérstöku umræðu, af því að málefni fatlaðs fólks eiga alltaf að vera í umræðunni og það hvernig við getum stutt betur við þau sem glíma við fötlun. Það hafa nokkrir hv. þingmenn — ég tek sem dæmi að hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir fór mjög vel áðan yfir nokkur verkefni hjá stjórnvöldum sem ætlað er að styðja við og tryggja að enginn sé skilinn út undan.
Mig langar til að nefna hér nokkur dæmi sem við getum öll gert í okkar daglega lífi til þess að auka inngildingu fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins því að það er mikilvægt að skapa samfélag sem hentar öllum. Við getum t.d. tryggt sjónlýsingu í sjónvarpi og á viðburðum. Það hefur verið prófað að sjónlýsa landsleikjum á Laugardalsvelli og vel verið tekið í það. Við getum hugað að hljóðvist og aðgengi í umhverfi okkar, bæði úti og inni, eins og að skilja ekki eftir rafskútur á miðri gangstétt. Við getum boðið upp á túlkaþjónustu á fundum og ráðstefnum. Við getum tryggt það að hægt sé að stækka letur á komuskjám í ráðuneytum, hjá sérfræðilæknum, tannlæknum, heilsugæslum og við getum nýtt ýmis tæki á samfélagsmiðlum eins og að setja alt-texta á myndir eða textað myndbönd til að tryggja það að allir geti verið hluti af samfélaginu, ekki bara í vinnunni heldur líka í daglegu lífi sínu.
Þetta eru bara örfá dæmi. Við skulum fara fram með sóma í þessum málaflokki og gera allt sem í okkar valdi stendur til að auka þekkingu á þeim áskorunum sem fatlað fólk býr við og búa til stöðugt og traust umhverfi.
Comments