Forseti. Það var eitt öruggt og það er að við vitum ekkert hvað gerist í framtíðinni. En við getum velt því fyrir okkur og rætt mögulegar sviðsmyndir og það er m.a. það sem við höfum gert í framtíðarnefnd Alþingis. Stjórnmálamenn eru mjög oft skammaðir fyrir að hugsa ekki nægilega langt fram í tímann en það er ekki hægt að saka framtíðarnefndina um það. Í þeirri nefnd höfum við rætt um loftslagsbreytingar, við höfum rætt um gervigreindina, við höfum rætt um öryggismál, við höfum rætt um framtíð þjóðþinga og við höfum rætt um framtíð lýðræðis.
Það sem hefur líka einkennt þessa nefnd er þetta þverpólitíska samstarf sem á sér stað. Við höfum haft það þannig að við erum á þriðja formanninum á þessu kjörtímabili. Við hófum kjörtímabilið á því að hv. þm. Logi Einarsson byrjaði með formennskuna, ég tók síðan við, hv. þm. Halldóra Mogensen tók við af mér og svo mun hv. þm. Orri Páll Jóhannsson taka við af henni. Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel og ég vil bara þakka þeim fyrir mjög gott samstarf. Þetta formannateymi hefur unnið náið saman vegna þess að við fengum það stóra verkefni í hendurnar að móta í rauninni framtíðarnefndina.
Við fórum, öll framtíðarnefndin, til Finnlands og ræddum við finnsku framtíðarnefndina um stöðuna hjá þeim. Þau eru ákveðin fyrirmynd fyrir allar þær framtíðarnefndir sem verið er að móta hjá öðrum þjóðþingum. Við höfum svolítið verið að flýta okkur að reyna að komast á sama stað og þau en það hefur tekið þau mjög mörg ár að komast á þann stað sem þau eru á í dag. Þau eru fastanefnd og eru talin mjög mikilvæg í finnska þinginu. Þau eru talin svo mikilvæg vegna þess að það er svo mikilvægt að við séum ávallt að hugsa langt fram í tímann þó að við séum að taka baráttur innan þinga til skamms tíma. Þegar við erum að setja hér lög þá ræðum við oft áhrifin sem verða á komandi ári, áhrifin sem verða á komandi fimm árum en sú umræða sem við höfum tekið inni hjá okkur varðar næstu 20 ár, varðar næstu 30 ár.
Mig langar sérstaklega að nefna gervigreindina eins og hefur verið gert á undan mér í ræðum. Gervigreindin hefur svolítið einkennt síðastliðið eitt og hálft ár í nefndinni. Við höfum farið á tvö heimsþing framtíðarnefnda og nú á síðasta heimsþingi framtíðarnefnda var aðaláherslan lögð á gervigreindina og hvernig gervigreindin er notuð innan þjóðþinga. Það geta verið ýmsir kostir við það að nota gervigreindina á þjóðþingum en því fylgja líka ákveðnar hættur og við ræddum það á þessu heimsþingi að áhrifin við það að nota gervigreindina geta verið mjög sérkennileg í ljósi þess að hún er í rauninni ekki tilbúin fyrir þá vinnu sem er verið að vinna innan þjóðþinganna. Ef við fáum ákveðin forrit — ég ætla að nefna hér Chat GPT sem er mjög vinsælt en það er samt byggt á gögnum sem eru nú þegar til og gögnin eru ekki í hag kvenna, þau eru ekki í hag ákveðinna minnihlutahópa. Þannig að ef við erum að biðja forritið um að búa til ræður fyrir okkur, um að vinna fyrir okkur mál þá þurfum við að hafa í huga að við getum verið að fá mjög hlutdræg svör til baka án þess að átta okkur á því. Og gervigreindin er að búa til fréttir, hún er farin að búa til ræður fyrir fólk úti um allt en hún er líka farin að nota gögnin sem hún sjálf gerði til að byggja á. Hún er því komin í ákveðinn vítahring. Við ræddum það á heimsþinginu hverju við þurfum að gæta okkur á og hvar við getum notað gervigreindina til þess að vinna í rauninni mikla handavinnu fyrir okkur. Það er mjög mikið af gögnum sem þingmenn þurfa að fara í gegnum á hverjum degi og að vissu leyti getur hún hjálpað okkur mjög mikið en við þurfum að gæta okkar á því að hún er ekki komin eins langt og við eigum von á.
En á sama tíma er hún að þróast alveg svakalega hratt og við í nefndinni höfum rætt þetta mjög mikið. Við fórum að halda málþing þar sem áherslan var á ákveðna hluta gervigreindar. Fyrsta málþingið sem við tókum var bara sérstök umræða um það hvernig staðan er hjá gervigreindinni. Hvað getur hún raunverulega gert og hvað mun hún líklega geta gert? Við sjáum að það er verið að semja löggjöf núna hjá Evrópusambandinu og það er ljóst að við munum þurfa að taka upp einhvers konar löggjöf hér en við getum ekki farið í einhverja sérstaka löggjöf hér á landi og bara verið ein og sér vegna þess að gervigreindin er á netinu og netið er alþjóðlegt og höfuðstöðvarnar eru ekki hér á landi. Það er því mjög erfitt fyrir okkur að ná yfir þetta. Það sem við höfum verið að ræða hjá okkur er: Hvar getum við komið til móts við þetta? Hvernig getum við komið með löggjöf þar sem við getum tekist á við það sem er að gerast á Íslandi? Það eru mjög margar áskoranir þar og við erum bara að skoða þetta og við erum að fá sérfræðinga til okkar til að ræða þessi mál.
Við höfum líka verið að vinna að skýrslu er varðar græn umskipti og þær áskoranir sem eru til ársins 2040. Við fengum mjög marga sérfræðinga til okkar að ræða þau mál og það voru mjög góðir fundir. Þar sátu stjórnmálamenn með sérfræðingum og oft voru sérfræðingarnir mjög ósammála innbyrðis, því að fólk hefur mismunandi sýn á framtíðina. Það veit enginn hvað gerist í framtíðinni. Þar af leiðandi eru í rauninni engin svör röng. Við þurfum að geta áttað okkur á því að við þurfum að vera tilbúin í hvað sem er. Sumt er líklegra en annað. En við teljum líka oft að eitthvað sé líklegra en annað en sá sem er við hliðina á okkur telur að eitthvað allt annað sé mun líklegra. Við erum að reyna að horfa á það að innan stjórnmálaflokka og milli stjórnmálaflokka er mjög mismunandi sýn á það hvað er líklegast að gerist en það er ekki slagur sem við tökum innan framtíðarnefndarinnar. Í rauninni er eitt af því sem einkennir þessa nefnd varðandi þverpólitísku umræðuna — og finnska nefndin hefur gert það líka — að það eru ekki greidd atkvæði þar. Það er bara verið að skoða allar sviðsmyndir: Ókei, það er alveg rétt, þetta getur gerst. Við erum ósammála um hvað er líklegast en þetta getur gerst. Þannig að það er umræða sem við tökum í nefndinni.
Í breyttu samfélagi er þörf fyrir breytta nálgun í stjórnmálum og til að allt gangi eins og það á að ganga þurfum við að temja okkur langtímahugsun og vinna að því á þverpólitískum vettvangi. Þegar við ræðum framtíðina eru engin rétt svör. Það getur allt gerst en við getum undirbúið okkur fyrir þær sviðsmyndir sem við teljum vera líklegastar. En þá þarf að vinna þær sviðsmyndir. Og hver á að gera það? Ég tel að framtíðarnefndin sé besti vettvangurinn til þess. Á sviði stjórnmála í öðrum löndum telja þingmenn að framtíðarnefndir séu besti vettvangurinn til þess. Við höfum góðan aðgang að sérfræðingum, við höfum góðan aðgang að ráðherrum, við getum verið þessi vettvangur sem skapar þessar sviðsmyndir og nær fólki saman. Hlutverk stjórnmálamanna er ekki að vita allt en við erum kannski þau sem geta leitt fólk saman. Við erum þau sem geta fengið sérfræðingana að borðinu og komist að niðurstöðu. Aftur á móti telja mjög margir sig vita næstum því allt, en það er annað mál. Við erum vettvangurinn til þess og þess vegna finnst mér vera mjög mikilvægt að framtíðarnefndin sé fest í sessi.
Það hefur verið mikið til umræðu í nefndinni hvernig eða hvar nefndin eigi að vera. Mögulega er fastanefnd vettvangurinn til þess, mögulega þyrftum við nokkur ár til viðbótar til þess en mér finnst það vera mjög skýrt að framtíðarnefndin þarf að vera á einhverju formi innan þingsins. Hún þarf að fá að þroskast áfram og ég held að þetta sé klárlega vettvangur sem þurfi að vera til staðar.
Comments