Virðulegi forseti. Ferðamannasumarið er að hefjast og við sjáum það á bókunum á gistingu, rútum og bílaleigubílum á ferðinni og litríku vindjökkunum í miðbænum. Þegar við keyrum um landið sjáum við ferðamenn um allt land, oft í nýjum aðstæðum, oft í hættulegum aðstæðum og maður fer að hugsa um öryggismál um allt land. Þegar kemur að öryggismálunum er margt sem þarf að huga að; heilbrigðisþjónustan um allt land, staða viðbragðsaðila og gott fjarskiptasamband. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Margar bílaleigur kynna síðan íslenskar aðstæður fyrir viðskiptavinum sínum og við erum með vefsíðu til að koma upplýsingum til skila og það eru góð skref. En samgöngur og fjarskipti eru risastór púsl í öryggismálum hjá okkur. Ég gæti staðið hér lengi og nefnt ýmiss konar verkefni sem brýnt er að ráðast í vegna öryggismála í landinu en ég vil nýta tímann í að koma með dæmi og ég ætla t.d. að tala hér um Blönduósflugvöll. Hann kemur mjög oft upp í umræðunni um öryggismál vegna þess að hann skiptir gríðarlegu máli fyrir sjúkraflug á sínu svæði. Hann er á milli heiða og þær heiðar eru oft lokaðar vegna veðurs og það getur nefnilega hver mínúta skipt máli þegar upp kemur slys. Önnur heiðin var t.d. lokuð í gær, Holtavörðuheiði, og það er maí. Maður á ekki alveg von á því í maí að heiðar séu lokaðar. Á flugvellinum er ekki malbik og því skapast oft erfiðar aðstæður fyrir sjúkraflugið og úr þessu þarf að bæta sem fyrst.
Það eru mörg önnur verkefni í samgöngumálum og til að nefna nokkur í mínu kjördæmi, sem ég myndi vilja spjalla um lengi, þá eru það Baldur, Fljótagöng, mörg göng á Vestfjörðum, Sundabraut, en við tökum bara betri umræðu um það þegar samgönguáætlun kemur. Það sem skiptir mestu máli í umræðu um samgöngur eru öryggismálin.
Bình luận