Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta atvinnuveganefndar fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030. Meginefni þingsályktunartillögunnar er að tryggja framtíðarsýn ferðaþjónustu til lengri tíma, styðja við sjálfbærni í ferðaþjónustu á öllum sviðum og stuðla að því að íslensk ferðaþjónusta verði þekkt fyrir gæði og einstaka upplifun. Það er gert með ferðamálastefnu og framkvæmd hennar með aðgerðaáætlun sem fylgir eftir framtíðarsýn, áherslum og markmiðum ferðamálastefnu, skilgreindum, kostnaðarmetnum og tímasettum aðgerðum. Aðgerðaáætlunin verði uppfærð á tveggja ára fresti fram til 2030. Samhliða framvindu aðgerða verði unnið að gerð skilgreindra mælikvarða til 2030 sem nái yfir framangreindar fjórar lykilstoðir ferðamálastefnu.
Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti. Auk þess bárust nefndinni 30 umsagnir sem eru aðgengilegar undir málinu á vef Alþingis. Nefndarálitið liggur frammi.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna frá nóvember 2021 kemur fram að framtíðarsýn ferðaþjónustu til 2030, sem mótuð var á síðasta kjörtímabili, verði fylgt eftir með aðgerðaáætlun sem styður bæði við langtímamarkmiðin og áherslu á atriðin tólf sem henni fylgdu. Árið 2022 hófst vinna við að aðgerðabinda þær áherslur í samræmi við stjórnarsáttmálann. Sú vinna hófst í kjölfarið og var lagt upp með að aðgerðaáætlun ferðamálastefnu muni fylgja eftir þeirri framtíðarsýn, markmiðum og áherslum sem koma fram í stefnunni til 2030. Framangreind stefna og aðgerðaáætlun um hana eru hér til umræðu.
Við umfjöllun nefndarinnar og í umsögnum til hennar hafa hagaðilar almennt verið jákvæðir gagnvart tillögunni. Í allnokkrum umsögnum komu fram ábendingar um að í upptalningu samstarfsaðila við einstakar aðgerðir vanti tiltekin stjórnvöld eða hagaðila. Meiri hlutinn telur ekki tilefni til að leggja fram breytingartillögu til að bæta við samstarfsaðilum, enda telur meiri hlutinn að um dæmatalningu sé að ræða. Þess í stað tekur meiri hlutinn undir með þeim umsagnaraðilum sem á það hafa bent að fleiri samstarfsaðila kunni að vanta að borðinu við framkvæmd áætlunarinnar og hvetur ráðuneytið og aðra framkvæmdaraðila til að hafa sem víðtækast samráð og samstarf við hagaðila og stofnanir þegar kemur að framkvæmd þingsályktunartillögunnar. Má þar nefna að þegar verið er að vinna að þeim aðgerðum sem miða að hálendi þá sé rætt við þau sem þekkja vel til þar og eru jafnvel á öndverðum meiði í skoðunum varðandi framtíðarsýn svæðisins til að fá öll sjónarmið að borðinu eða, þegar verið sé að vinna að aðgerðum sem varða eina atvinnugrein innan ferðaþjónustunnar, og þá ætla ég að taka hér skemmtiferðaskipin sem dæmi, þá sé samstarf við þá aðila sem starfa í því.
Við umfjöllun nefndarinnar var fjallað um ábyrgð og þekkingu leiðsögumanna en um menntunarkröfur þeirra er fjallað í aðgerð E.3. Meiri hlutinn telur að mikilvægt sé að byrja á því að setja ríkari kröfur til þeirra leiðsögumanna sem starfa í þjóðgörðum, eins og kemur fram í aðgerðinni, og í framhaldi af reynslunni af því að meta hvort þörf og aðstaða sé til að láta kröfu einnig ná til annarra hópa. Það hafa verið settir á fót starfshópar sem kannað hafa sérstaklega stöðu leiðsögumanna á Íslandi. Það er ljóst að eftir nokkur ár verðum við komin á þann stað að það þarf að ræða þær kröfur sem við gerum til leiðsögumanna og til þeirra sem kynna landið okkar og tryggja öryggi sinna skjólstæðinga. Þess vegna er það gott fyrsta skref að byrja á leiðsögumönnum sem starfa í þjóðgörðum því þar geta komið upp hættulegar aðstæður og náttúruvernd skiptir miklu máli. Því er gott að leiðsögumenn þar geti leiðbeint ferðamönnum á öruggan hátt og tryggt náttúruvernd á sama tíma.
Einnig fjallaði nefndin um áhrif ferðamanna á innviði heilbrigðisþjónustu en vaxandi ferðamannastraumur hingað til lands hefur leitt til aukins álags á heilbrigðisþjónustu hér á landi, sér í lagi bráðamóttöku og heilbrigðisstofnanir um allt land. Í aðgerð D.1. er fjallað um þróun verkfærakistu til að meta þolmörk og bregðast við álagi á áfangastöðum ferðamanna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að hluti af þeirri vinnu verði mat á þolmörkum þegar kemur að áhrifum vaxandi ferðamannafjölda á innviði heilbrigðisþjónustu eftir þjónustustigi og landsvæðum til að meta hvernig bregðast megi við auknu álagi á innviði heilbrigðisþjónustu. Þá telur meiri hlutinn að hægt sé að nýta jafnvægisás ferðaþjónustunnar við þá vinnu. Þar verði m.a. hægt að fylgjast með þolmörkum varðandi álag ferðaþjónustu á heilbrigðisþjónustu. Í framhaldi af þeirri aðgerð verði svo metið hvort þörf sé á víðtækari aðgerð sem beinist sérstaklega að heilbrigðisþjónustunni og þá í nánu samstarfi við heilbrigðisráðuneytið.
Ásamt þessu fjallaði nefndin um gistináttaskatt og aðgerð B.4., um afnám gistináttaskatts. Meiri hlutinn leggur til að breytingar verði gerðar á þeirri aðgerð. Meiri hlutinn leggur til að heiti aðgerðarinnar verði Endurskoðun gistináttaskatts í stað Afnám gistináttaskatts, auk þess að ný lýsing komi í stað núverandi lýsingar sem að mati meiri hlutans er betur til þess fallin að ná því markmiði að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtökunni, til samræmis við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og umsagnir sem bárust um aðgerðirnar. Leggur meiri hlutinn því til að samhliða endurskoðun á gistináttaskatti verði hlutdeild sveitarfélaga í gjaldtöku af ferðaþjónustu tekin til skoðunar.
Að framangreindu virtu leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með breytingum sem liggja fyrir í nefndaráliti.
Undir álit nefndarinnar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Þórarinn Ingi Pétursson, Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson, Óli Björn Kárason, Eva Dögg Davíðsdóttir og Tómas A. Tómasson.
Hæstv. forseti. Hér erum við með stefnu þar sem haft var víðtækt og gott samráð. Hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra hélt fundi í öllum landshlutum þar sem ferðaþjónustuaðilum var boðið til þess að koma að þessari vinnu og einnig voru sjö stýrihópar sem unnu að því að móta þær tillögur sem eru hér til umræðu. Ég vil hrósa hæstv. ráðherra og ráðuneytinu fyrir þessa vinnu.
Í stefnunni er fjöldi tillagna, þær varða rannsóknir og gögn, efnahag, samfélag, umhverfi og ferðamenn. Í kaflanum um efnahag er lögð áhersla á aukna framleiðni, verðmætasköpun, samkeppnishæfni um allt land, framþróun og markvissa sókn á verðmæta markaði og markhópa. Í kaflanum um samfélagið er lögð áhersla á nærsamfélagið og aukin lífsgæði um land allt. Einnig er fjallað um stjórnun og uppbyggingu áfangastaða og að gestir dreifist um landið. Í kaflanum um umhverfi er lögð áhersla á minnkandi kolefnisspor og forystuhlutverk í orkuskiptum og nýtingu vistvænna orkugjafa, jafnvægi milli hagnýtingar og verndar náttúru og virðingu fyrir þolmörkum og álagsstýring sett á áfangastaði ferðamanna. Sem dæmi má taka tillögur er varða bætt öryggi ferðamanna, orkuskipti í ferðaþjónustu, uppbyggingu millilandaflugs, regluverk um landeigendafélög, stuðning við áfangastaðastofur, aukið eftirlit með heimagistingu, áherslu á sanngildi og sérstöðu íslenskrar menningar, aukna fjárfestingu í nýsköpun og vöruþróun í ferðaþjónustu, stóraukinn stuðning við rannsóknir og greiningar í tengslum við ferðaþjónustuna og margar aðrar tillögur.
Ég tel að þessi stefna sé fagnaðarefni fyrir íslenska ferðaþjónustu og legg til að hún verði samþykkt.
Comments