Hæstv. forseti. Kæra þjóð. Síðustu ár hafa fært okkur ýmsar áskoranir. Þingið hefur þurft að kljást við fjölda mála á þessu kjörtímabili og því síðasta; mál sem komu skyndilega upp og enginn stjórnmálaflokkur hafði á stefnuskránni sinni. Mál eins og heimsfaraldur og skriðuföll, eldgos og jarðskjálftar og flutningur á heilu bæjarfélagi. Einnig hefur fjöldi vopnaðra átaka aldrei verið meiri í heiminum á sama tíma frá lokum seinni heimsstyrjaldar.
Allt þetta hefur áhrif til skemmri og lengri tíma. En þrátt fyrir þessar aðstæður höfum við í Framsókn unnið hér statt og stöðugt að því að halda samfélaginu gangandi, komið fram með fjölda mála sem eru samfélaginu til bóta og við erum hvergi nærri hætt. Við höfum aldrei áður byggt jafn margar íbúðir. En landsmenn hafa heldur aldrei verið fleiri og okkur fjölgar hratt. Ég get líklega tekið einhverja ábyrgð á því. [Hlátur í þingsal.]
Við komum að gerð kjarasamninga og leggjum okkar af mörkum með ýmsum aðgerðum, m.a. fyrir barnafólk. Má þar nefna hækkun á þaki fæðingarorlofs og hækkun barnabóta. Einnig er aukinn stuðningur við eigendur húsnæðis og leigjendur og lögð áhersla á bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.
Með Framsókn í fararbroddi í íslenskum stjórnmálum hefur samfélagið okkar náð að blómstra. Við trónum nálægt toppum á listum sem mæla jafnrétti kynjanna eða stöðu hinsegin fólks. En við sjáum bakslag í jafnréttisbaráttunni á heimsvísu og við þurfum stöðugt að vera á verðinum til að tryggja mannréttindi. Við búum á landi þar sem er einna öruggast að vera kona og þar sem eru mestu tækifærin fyrir ungt fólk. Það er vegna þeirra aðstæðna sem við sem samfélag höfum skapað, en það má þó alltaf gera betur.
Mig langar til þess að ræða hér sérstaklega stöðu ungs fólks í íslensku samfélagi. Mér hefur hlotnast sá heiður síðastliðin þrjú ár að vera yngsti kjörni alþingismaðurinn. Það er titill sem tíminn tekur af manni en við sjáum það úti um allan heim að ungu fólki er ekki treyst til þess að kjósa, því er ekki treyst til að bjóða sig fram eða til þess að gegna stjórnunarstöðum. Og sjálfri þykir mér það gríðarlega mikilvægt að ungt fólk taki þátt í öllum ákvarðanatökum. Því að það er nauðsynlegt að hópurinn á bak við stórar ákvarðanir sýni ákveðna breidd þar sem mismunandi sjónarmið liggja að baki og framtíðarsýnin er til staðar á sama tíma og við höfum reynslu fortíðarinnar. En þó að það sé margt ungt fólk á góðum stað og komi að ákvarðanatökum þá er samt nauðsynlegt að taka utan um hópinn í heild því að við erum að sjá það að það eru allt of margir einstaklingar undir þrítugu sem eru hvorki í vinnu né námi. Hópurinn frá 18–30 ára er á viðkvæmu stigi í sínu lífi og við eigum að koma með fleiri aðgerðir sem koma sérstaklega til móts við þann hóp, aðgerðir eins og hlutdeildarlánin sem voru sett á fót til þess að hjálpa ungu fólki til að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Það var tillaga sem Framsókn lagði fram og var samþykkt hér inni. Við þurfum að skoða þennan hóp heildstætt. Við höfum farið af stað í miklar kerfisbreytingar í málefnum barna og erum að stíga fyrstu skrefin þar og það er hægt að horfa til þeirrar vinnu. Ég myndi vilja að ríkisstjórnin setti sér sérstaka ungmennastefnu með aðgerðaáætlun og ég hvet hana eindregið til þess.
Að mínu mati eru stefnur ríkisstjórna eitt besta verkfærið til framtíðarstefnumótunar því að þær standa þó að ný ríkisstjórn komi að borðinu. Í þeim felst framtíðarsýn þingsins í mismunandi málaflokkum og nú á þessu kjörtímabili hafa verið lagðar fram og samþykktar mikilvægar stefnur og aðgerðaáætlanir þeim tengdar. Má þar nefna matvælastefnu og landbúnaðarstefnu, tónlistarstefnu, byggðaáætlun og samgönguáætlun sem og aðgerðaáætlanir um íslenska tungu, í geðheilbrigðismálum og í málefnum hinsegin fólks. Svo eru nú til umræðu hér í þinginu stefnur er varða ferðaþjónustu, bókmenntir og húsnæðismál. Þetta gefur tóninn er varðar stöðu og framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar í ótal mörgum málaflokkum.
Hæstv. forseti. Þrátt fyrir fjölda áskorana síðastliðin ár þá vitum við samt að mörg verkefni bíða okkar. Framsókn mun áfram ganga í þau mál sem þarf að vinna, bæði þau sem eru umdeild og vekja mikla athygli en líka þau sem fá ekki sömu athygli. Við munum halda áfram að vinna fyrir ykkur og ganga í þau verk sem þarf að ganga til þess að allt virki rétt. — Gleðilegt sumar.
Comments