Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um breytingu á þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og það er margt gott í þeirri tillögu og ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsöguna hér áðan. Það eru ákveðnir hlutir í þessari tillögu sem ég vil leggja sérstaka áherslu á. Fyrst vil ég nefna það sem kemur fram í d-lið. Þar segir, með leyfi forseta:
„Að stuðlað verði að vernd og órofa virkni mikilvægra innviða og styrkingu áfallaþols samfélagsins gagnvart hvers kyns ógnum. Lögð verði áhersla á að tryggja skilvirkan og samhæfðan viðbúnað og viðbrögð til þess að takast á við afleiðingar hvers kyns ógna við líf og heilsu fólks, umhverfi, eignir og innviði. Tekið verði mið af ógnum sem tengjast náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum.“
Hér er margt sem hægt er að ræða. Ég vil byrja á að ræða um mikilvægi fjarskiptainnviða og áfallaþol þeirra. Um allt land eru svæði sem eru ekki tengd eða þola illa áföll. Margir farsímasendar eru með varaafl sem dugar takmarkað. Það getur þýtt að ef veður er slæmt í marga daga sem veldur rafmagnsleysi geta verið margir sem ekki geta látið vita af sér vegna sambandsleysis. Þetta getur haft og hefur haft margs konar afleiðingar. Ein þeirra er að fólk treystir sér einfaldlega ekki til að búa á svæði þar sem líkur eru á sambandsleysi. Tryggt samband skiptir máli um allt land og ef eitthvað kemur upp á þurfum við að geta haft samband við viðbragðsaðila. Það er ekki staðan á öllu landinu í dag. Þess eru mörg dæmi að fólk lendi í slysum, eins og t.d. bílslysi, og geti ekki haft samband í tæka tíð við viðbragðsaðila. Við þurfum að geta tryggt öryggi fólks alls staðar á landinu.
Annað sem nefnt var í d-lið tillögunnar er matvælaöryggi. Þar vil ég tala um sýklalyfjaónæmi en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé mesta lýðheilsuvá sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag. Sýklalyfjaónæmi er notað yfir það þegar bakteríur verða ónæmar fyrir sýklalyfjum. Í framhaldinu er það þannig að ef nota á sýklalyf til að meðhöndla sýkingu af þeirra völdum þá virkar viðkomandi sýklalyf ekki. Ef áfram heldur sem horfir og engin skref verða stigin til að bregðast við þeirri þróun sem blasir við gæti niðurstaðan orðið sú að við höfum engin sýklalyf til að meðhöndla sýkingar í mönnum. Gert hefur verið ráð fyrir að u.þ.b. 700.000 dauðsföll í heiminum á ári megi rekja til sýklalyfjaónæmis. Þær spár sem gerðar hafa verið í þessum efnum gera ráð fyrir að ef ekkert verður að gert verði þessi tala komin í tíu milljónir árið 2050. Það myndi þýða að fleiri muni látast af völdum sýklalyfjaónæmra baktería en látast af völdum krabbameins í dag. Sýklalyfjaónæmi í fólki á Íslandi er með því lægsta sem þekkist í heiminum og það þrátt fyrir að sýklalyf séu notuð í svipuðu magni hér á landi og þekkist víðast hvar í Evrópu. Sérstaða okkar hvað sýklalyfjaónæmi varðar er afar áhugaverð og tilefni til að viðhalda henni. Þegar við skoðum útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería sjáum við að þær geta hæglega breiðst út með kjöti og staðan í Evrópu hvað varðar notkun sýklalyfja í landbúnaði er víða afar slæm. Staða okkar er fyrirmynd í mörgum öðrum Evrópulöndum þegar kemur að vörnum gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería og við megum ekki hætta á að sú staða glatist. Það verður að gera allt sem hægt er til þess að stemma stigu við þessu ónæmi.
Ég vil einnig nefna það sem kemur fram í f-lið tillögunnar. Þar stendur, með leyfi forseta:
„Að stuðla að auknu net- og upplýsingaöryggi á öllum sviðum samfélagsins með samhæfðum aðgerðum, áframhaldandi uppbyggingu á eigin getu og með samstarfi við önnur ríki.“
Nú í nóvember var sérstök umræða hér í þinginu um fjölþátta ógnir og netöryggi. Þar sköpuðust góðar umræður. Þar vakti ég athygli á þróun gervigreindar og mikilvægi þess að við skiljum hvernig hún virkar. Við erum nefnilega að færast ansi nálægt því að skilja ekki hversu mikið tækin læra á okkur. Samfélagsmiðlar kunna margir betur á okkur og okkar áhugamál en við sjálf. Það getur haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif. Stór hluti af félagslífi okkar er í gegnum samfélagsmiðla; Facebook, Instagram, Snapchat, TikTok. Í hverri viku koma nýir samfélagsmiðlar og nýjar vefsíður sem við gefum leyfi til að safna upplýsingum um staðsetningu okkar, hvaða myndir við tökum, við hverja við tölum og upplýsingar sem við áttum okkur ekki einu sinni á að verið sé að safna um okkur. Í sumum tilvikum er þetta okkur til góðs og gervigreindin sýnir okkur hluti sem við höfum áhuga á. En við sjáum líka að þetta hefur neikvæð áhrif. Þegar fólk er komið inn í ákveðna lokaða hópa getur það gerst að það telji að þær neikvæðu upplýsingar sem það er að fá í sífellu séu eðlilegur hlutur. Við sjáum þetta í tengslum við fjölda ofbeldismála, þróun umræðu um ýmsa hópa eins og í aukinni neikvæðri umræðu um hinsegin samfélagið. Fyrirtæki og samfélagsmiðlar geta haft mikil völd. Þau geta haft áhrif á lýðræðið því þau geta stjórnað því hvernig upplýsingar það eru sem við fáum á samfélagsmiðlum. Þetta getur verið lúmskt og því er mikilvægt að við séum öll upplýst og tryggjum að miðlalæsi þjóðarinnar sé gott.
Annars er ég almennt mjög ánægð með þær tillögur sem koma fram og ég þakka forsætisráðherra fyrir að hafa lagt þær fram.
Comments