Við erum hér að ræða frumvarp er varðar stofnun Þjóðaróperu. Sjálfri þykir mér þetta vera mjög mikilvægt mál og framfaraskref fyrir íslenska menningu. Ég þakka hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra kærlega fyrir alla sína vinnu í þessu máli, að koma fram með þetta frumvarp, og alla sína vinnu í þágu íslenskrar menningar. Menning er ein af grundvallarstoðum samfélaga; spegill þeirra gilda, sögu og samfélagslegrar þróunar sem mótar sjálfsmynd þjóða. Án menningar væri samfélag manna afar fábreytt og svipt mikilvægum þáttum sem gefa lífinu gildi og dýpt. Menning er mikilvæg vegna þess að hún er lykilþáttur í að viðhalda og styrkja þjóðarvitund og samheldni og hún veitir einstaklingum og hópum tilfinningu fyrir því að þeir tilheyri ákveðinni þjóð, sem er grundvöllur fyrir þjóðerniskennd og sameiginlegum gildum. Þjóðaróperur og aðrar menningarstofnanir spila mjög mikilvægt hlutverk í því að varðveita og miðla þjóðlegum arfi, ekki aðeins til sinnar eigin þjóðar heldur einnig til heimsins. Menning stuðlar að efnahagslegri þróun eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra áðan. Mjög mikilvægur atvinnuvegur heyrir undir menninguna sem skapar störf og tekjur. Óperur skipta þar í mörgum ríkjum miklu máli fyrir ferðaþjónustuna og almennar fjárfestingar í menningartengdri þjónustu. Það er eitthvað sem við getum gert enn betur hér á landi vegna þess að óperan hefur ekki verið eins stór og hún gæti verið. Óperan gæti verið tækifæri til að sýna erlendum gestum fjölbreytta og ríka íslenska menningu og gæti aðstoðað við að laða að aukinn straum ferðamanna og styrkt efnahagslíf landsins.
Þetta frumvarp tryggir stöðu óperu á Íslandi. Komið hafa upp mörg mál sem hafa skapað mjög flókna og erfiða stöðu fyrir menntaða söngvara hér á landi, sérstaklega með tilliti til kjara. Þetta frumvarp leggur það til að Þjóðarópera verði sjálfstæð eining undir Þjóðleikhúsinu með það að markmiði að efla óperulistir og tryggja að hún hafi fastan og stöðugan vettvang í íslensku menningarlífi. Við Íslendingar eigum mikinn fjölda af klassískt menntuðu tónlistarfólki, hljóðfæraleikurum, söngvurum og tónskáldum, sem hefur náð langt á erlendri grundu. Okkar frambærilegu söngvarar hafa að megninu til numið erlendis á háskólastigi og að námi loknu sjá þeir sér ekki fært að flytja aftur heim vegna þess að ekki er hægt að starfa sem söngvari hérlendis, en óperuumhverfið á Íslandi hefur aldrei boðið upp á fastráðningu fyrir söngvara. Undanfarin ár hafa ungir söngvarar komið heim aftur og stofnað til eigin verkefna ásamt því að starfa við eitthvað annað, eins og aðhlynningarstörf í heilbrigðisgeiranum. Meðfram starfi hafa þessir ungu söngvarar efnt til tónleika og sett upp óperusýningar, hefðbundnar og frumfluttar, en stærri og minni óperur eftir íslensk tónskáld eru reglulega frumfluttar hér á landi með stórskotaliði íslenskra söngvara. Rótin er því sterk en grasrótarstarf óperulistafólks hlaut Grímuverðlaunin á síðasta ári í flokknum sproti ársins.
Við þurfum að huga að okkar listafólki og skapa fyrir það farveg svo að listsköpun og flutningur geti blómstrað hér á landi. Með stofnun Þjóðaróperu væri verið að leggja listformið til jafns við leiklist og danslist. Eins og fram kemur í yfirlýsingu Fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, með leyfi forseta:
„Með samlegð við Þjóðleikhús skapast grundvöllur til samfelldrar starfsemi, fastráðninga söngvara, fjölbreyttra atvinnutækifæra fyrir söngvara og ýmsa aðra hópa listamanna og spennandi möguleikar til nýsköpunar og framþróunar óperulistformsins, sem mun loks njóta jafnræðis [í íslensku menningarlífi.]“
Þær breytingar á lögum sem eru til umræðu hér miða að því að styrkja og staðfesta stöðu óperulistar í íslensku samfélagi, auka menningarlegan fjölbreytileika og styðja við langtímaþróun íslenskra lista og ég vona innilega að þetta frumvarp hljóti framgang innan þingsins.
Comments