-Grein birtist í Morgunblaðinu 24. maí 2024-
Á meðan blekið er enn að þorna á stórum samningum fyrir heilbrigðiskerfið okkar þá mundar heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, pennann á ný. Það fór ekki framhjá mörgum þegar samið var við sérgreinalækna og er fólk farið að finna fyrir jákvæðum áhrifum þess samnings. En nú hefur einnig verið samið við sjúkraþjálfara eftir fjögurra ára samningsleysi. Um er að ræða mikilvæga samninga og talsverða kjarabót fyrir fólk sem þarf að sækja þjónustu sjúkraþjálfara.
Notendur í fyrsta sæti
Með nýjum langtímasamningum við sjúkraþjálfara falla niður aukagjöld sem notendur þjónustunnar hafa greitt á tímum samningsleysis. Samningurinn stuðlar að bættu aðgengi að þjónustunni og að auknum jöfnuði. Það á enginn að neyðast til þess að neita sér um þjónustu af þessu tagi sökum kostnaðar en markmið samningsins er einnig að koma í veg fyrir slík tilvik.
Verulega bætt aðgengi að þjónustu sjúkraþjálfara hefur jákvæð áhrif bæði á notendur hennar og samfélagið allt til framtíðar. Meðal annars í ljósi þess að starf sjúkraþjálfara felst til að mynda í fyrirbyggjandi meðferð eins og að draga úr afleiðingum áverka, álagseinkenna, sjúkdóma og lífsstíls sem með truflun á hreyfingu geta raskað lífi einstaklingsins.
Ekki vanþörf á
Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands hafa næstum 42.000 manns sótt þjónustu sjúkraþjálfara á þessu ári. Í fyrra sóttu rúmlega 62.000 einstaklingar þjónustuna og heimsóknirnar voru um 928.000 talsins. Það eru kringum 14,9 heimsóknir á hvern einstakling. Það gefur augaleið að talsverður fjöldi landsmanna þarfnast þjónustu af þessu tagi til að fá bót meina sinna. Það verður almennt að fara oft til sjúkraþjálfara og vinna í skrefum. Allt þetta leiðir til þess að framangreind aukagjöld, sem þessir samningar fella niður, geta reynst mjög há að öllu samanlögðu.
Framþróun sjúkraþjálfunar
Ásamt þessu er kveðið á í samningum þessum að unnið verði að útfærslu ýmissa úrbóta- og þróunarverkefna ásamt því að lögð er áhersla á eflingu gæðastarfs með því að veita hvata til þess að sjúkraþjálfarar vinni innan svokallaðra starfsheilda sem einnig munu annast skipulagningu og eftirlit með þjónustunni.
Allt þetta tryggir frekari gæði þjónustunnar sem sjúkraþjálfarar veita, notendum og starfsstéttinni sjálfri til hagsbóta.
Fjöldi mikilvægra samninga
Það hefur verið nóg að gera innan veggja heilbrigðisráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands. Þar hefur verið unnin þrotlaus vinna á þessu kjörtímabili við að klára viðræður við mikilvægar starfstéttir í heilbrigðisgeiranum, ná samningum og binda enda á samningsleysistímabil. Samningar við sérfræðilækna, sjúkraliða og samningur um tannlæknaþjónustu eru góð dæmi um vinnu sem vert er að fagna. Þessir samningar og þau verkefni sem tengjast þeim eru notendum til verulegra hagsbóta þegar horft er á stóru myndina. Þeir eru til þess fallnir að auka aðgengi fólks að nauðsynlegri þjónustu og stuðla að jafnvægi í samfélaginu.
Comments