-Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. október 2023-
Hvernig geta þingmenn notað gervigreind til daglegra starfa? Þetta var ein af spurningunum sem spurt var á nýafstöðnu heimsþingi framtíðarnefnda þjóðþinga. Á fundinn mættu þingmenn alls staðar að úr heiminum til þess að ræða tækifæri og hættur gervigreindar og hvernig við gætum nýtt hana okkur í hag. Gervigreindin getur nefnilega gert ótrúlega hluti. Hún getur aðstoðað okkur við ræðuskrif, frumvarpagerð og reiknað út svör við ýmsum fyrirspurnum. Ég tók þátt í pallborði á heimsþinginu um möguleika gervigreindarinnar á þjóðþingum. Ég talaði um þær hættur sem fælust í því ef þingmenn færu að nota gervigreindina í þessa vinnu án þess að gjalda varhug við henni. Gervigreindin er byggð á gögnum sem eru nú þegar til á netinu, mörg ár aftur í tímann. Stór hluti þessara gagna er þó mjög neikvæður í garð sumra hópa, t.d. kvenna og hinsegin fólks. Því meira af neikvæðum gögnum sem gervigreindin finnur, því líklegra er það til þess að endurspeglast í svörunum sem gervigreindin gefur okkur. Ef við leggjum fullt traust á gervigreindina til að aðstoða okkur þá gæti það leitt til aukinnar upplýsingaóreiðu því gervigreindin metur ekki mannlega þáttinn og sannleikann í þeim gögnum sem hún vinnur úr.
Ég ræddi einnig um stöðu barna gagnvart gervigreindinni í pallborðinu. Fyrr á heimsþinginu höfðu starfsmenn stærstu tæknifyrirtækja heims mætt í pallborð til að segja afstöðu sinna fyrirtækja gagnvart gervigreindinni og töluðu um hana nær alfarið á jákvæðu nótunum. Sú staðreynd að þessi fyrirtæki hafa safnað gögnum um hvert einasta mannsbarn sem notar samfélagsmiðla þeirra í mörg ár var lítið rædd í pallborði tæknifyrirtækjanna. Áhugi þeirra á lagasetningu í kringum gervigreind var líka mjög takmarkaður. En það er líka mjög erfitt að setja lög í kringum gervigreind. Ég nefndi að við gætum þó einblínt á þá hluta sem við gætum sett lög um; eins og persónuvernd og gagnasöfnun stórfyrirtækja. Á Íslandi nota 98% barna, eldri en 9 ára, síma. Sem þýðir að gagnasöfnun um þau hefst mjög snemma og það er mjög lítið um alþjóðleg lög til að takast á við það. Það er mikilvægt að allar þjóðir fari að huga að því að setja tækninni hömlur – án þess þó að stöðva nýsköpun og tækniframfarir. Miðlalæsi, lagasetning og alþjóðlegt samstarf skipta sköpum þegar kemur að gervigreindinni. Gervigreindin getur verið eitt af okkar helstu verkfærum til framþróunar en ef við gerum ekkert þá getur þetta orðið vopn sem snýst í höndunum á okkur.
Comments