-Greinin birtist í Morgunblaðinu 11.mars 2023-
Lengi hefur verið vöntun á fleiri einstaklingum með iðnmenntun hér á landi og, í kjölfar aðgerða að hálfu ríkisstjórnarinnar, hefur þeim fjölgað verulega sem hafa áhuga á að stunda iðnnám. Talið er að nemendum í starfsnámi fjölgi um 18% næstu árin. Þetta er vissulega ánægjuleg þróun. Hins vegar er nauðsynlegt að við henni verði brugðist hvað varðar námsframboð og fullnægjandi innviði fyrir hverja námsleið.
Meira og betra verknám
Í síðustu viku opinberaði mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, áform innan ráðuneytisins um að efla verknám enn frekar og bregðast við ofangreindri þróun. Ein meginástæða fyrir höfnun í verknám hefur verið skortur á aðstöðu til að taka við. Á síðasta ári sáum við hundruðum einstaklinga synjað um aðgengi að iðnnámi vegna þessa, einmitt þegar vöntunin er mikil. Því er ljóst að byggja þurfi nauðsynlega innviði og stækka ýmsa skóla svo að hægt verði að bregðast við sívaxandi aðsókn í verknámsleiðir. Ljóst er að auka þurfi námsaðstöðuna um allt að 19.500 fermetra svo að hægt sé að mæta þeirri fjölgun sem greiningar fyrir næstu ár sýna fram á.
Vegferðin er hafin
Nú þegar hefur ríkisstjórnin stækkað húsnæði til verknáms í samræmi við markmið ríkisstjórnarsáttmálans. Nýr og stærri Tækniskóli er langt kominn í Hafnarfirði, þar sem aðstaðan verður efld til muna og hægt er að taka á móti fleiri nemendum. Einnig hefur verið gengið frá samningi um stækkun starfsnámsaðstöðu Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Sú stækkun nemur alls 2.400 fermetrum. Auk þessa hafa skref verið tekin í átt að fjölgun námsleiða í Borgarholtsskóla, þá sérstaklega í pípulögnum.
Skref fyrir skref
Iðngreinar hafa lengi verið vanmetnar hér á landi þar sem langflestir velja hina hefðbundnu námsframvindu, þ.e. bóknám að lokinni framhaldsskólagráðu. Það er ekki nema á síðustu árum sem ungt fólk hefur áttað sig á þeim fjölmörgu tækifærum sem felast í iðnnámi. Við sjáum það núna í stórfelldri aukningu aðsóknar í slíkt nám. Því er nauðsynlegt að brugðist verði við og allir hafi tækifæri til að sækja iðnnám rétt eins og bóknám. Mikilvægasti fasinn er að tryggja nauðsynlega innviði.
Svo stórt verkefni þarfnast tíma og verður tekið í skrefum. Um er að ræða talsverða uppbyggingu, sem mun skila sér margfalt til baka að lokum. Þá sérstaklega fyrir nemendur utan höfuðborgarsvæðisins, sem hafa ekki horft upp á mikinn fjölda námstækifæra í iðnnámi nema með því skilyrði að þeir flytji suður. Verkefnið er þarft og það er mikið fagnaðarefni að sjá ríkisstjórnina, og þá sérstaklega mennta- og barnamálaráðherra, bregðast við með þessum hætti.
Comments