top of page
Search
  • Writer's pictureLilja Rannveig Sigurgeirsdóttir

18 ára og fullorðin


Eitt af kosningamálum Framsóknar er að öll réttindi sem tengjast fullorðinsaldri verði virk við 18 ára aldur. En hvað þýðir þetta?


Við viljum að öll réttindi og aldurstakmörk í lögum verði skoðuð og miðuð við 18 ára aldur.

Ef lög landsins eru skoðuð þá er ekki hægt að finna eitt svar við því hvenær hægt er að treysta fólki fyrir sínum ákvörðunum og réttindum. Mismunandi aldurstakmörk finnast í lögum og reglum og í sumum tilvikum virðist huglægt mat hverju sinni hafa legið að baki. Sem dæmi um slík aldurstakmörk má nefna skólaskylduna sem er til 16 ára, en sama ár byrja börn að borga fullan tekjuskatt þrátt fyrir að skólagöngu þeirra sé ekki endilega lokið. Tveimur árum síðar, þ.e. á 18 ára afmælisdeginum, verða einstaklingarnir fullorðnir að lögum, sem þýðir að þau eru fjárráða, mega ganga í hjúskap, verða skipstjórar, fá full ökuréttindi, bjóða sig fram til Alþingis og sveitastjórna og hljóta kosningarétt. Þó mega þau ekki bjóða sig fram til forseta, verða sýslumenn né versla sér áfengi.


Til að bjóða sig fram til forseta þarf einstaklingur að vera orðin 35 ára á kjördag. Til þess að verða sýslumaður eða héraðsdómari þarf einstaklingur að vera orðin 30 ára. Þegar við lítum til annarra dómaraembætta þá þarftu að vera orðin eldri, en til þess að verða Landsréttardómari eða Hæstaréttardómari þá þarftu að hafa náð 35 ára aldri. Furðu vekur að það hafa engin takmörk verið sett á í lögum um aldurstakmörk yfirmanns framangreinda embætta en ef staðan kæmi upp þá getur sá sem nýverið hefur fengið kosningarétt einnig verið ráðherra og þar með yfirmaður framangreindra embætta.

Framangreind aldurstakmörk vekja upp margar spurningar. Er aldur eina viðmiðið fyrir þroska og reynslu? Ættu kjósendur ekki að geta lagt mat á það sjálfir með því að fylgjast með kosningabaráttu og kosið þann einstakling sem þeir telja hæfastan?


Reynsla, þroski og skilningur einstaklinga einskorðast ekki eingöngu við aldur. Við teljum það mikilvægt að endurskoða hvernig við setjum takmörk eða skilyrði um ákveðinn lágmarksaldur í lögum. Samkvæmt alþjóðasamningum er fólk fullorðið 18 ára og ætti þar af leiðandi að vera fullorðið fólk að lögum sama að hverju lögin lúta.


Förum að endurskoða þann úrelta hugsunarhátt sem fylgir þessum aldurstakmörkum sem eingöngu mætti tengja við að þú þurfir að hafa öðlast ákveðna reynslu og þroska til að geta sinnt tilteknum störfum eða notið ákveðinna réttinda.


Framsókn treystir ungu fólki til áhrifa og til ábyrgðar!

14 views0 comments

コメント


Post: Blog2_Post
bottom of page